Körfubolti

Martin og Styrmir góðir en liðunum gekk mis­vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin áttu ekki í miklum vandræðum með að leggja Bonn að velli í kvöld.
Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin áttu ekki í miklum vandræðum með að leggja Bonn að velli í kvöld. getty/Mathias Renner

Martin Hermannsson átti góðan leik þegar Alba Berlin vann öruggan sigur á Bonn, 90-69, í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Alba Berlin er áfram í 2. sæti deildarinnar, nú með 25 sigra og sjö töp. Bayern München er á toppnum með 26 sigra og fimm töp.

Martin var venju samkvæmt í byrjunarliði Alba Berlin og lék í 21 mínútu. Hann skoraði þrettán stig og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum.

Íslenski landsliðsmaðurinn hitti úr fimm af sex skotum sínum inni í teig en tók ekki þriggja stiga skot í leiknum. Þá skoraði Martin þrjú stig af vítalínunni.

Styrmir Snær Þrastarson skoraði fjórtán stig þegar Belfius Mons tapaði fyrir Antwerp Giants, 80-64, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum um belgíska meistaratitilinn.

Styrmir hitti úr fjórum af sjö tveggja stiga skotum sínum og setti niður tvo þrista í þremur tilraunum.

Næsti leikur liðanna verður á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×